Lykilstarfsmenn

Verklagsreglur um hæfi lykilstarfsmanna
Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja

Verklagsreglur þessar eru m.a. settar í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2010 og varða hæfi lykilstarfsmanna Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja.

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja gerir ríkar kröfur til hæfis og heilinda starfsmanna lífeyrissjóðsins, jafnt sem trúverðugleika og faglegrar hæfni þeirra. Markmið þessara verklagsreglna er að viðhalda trausti sjóðsfélaga og viðskiptaaðila, efla trúverðugleika Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og draga úr hugsanlegri rekstrar- og orðsporsáhættu í rekstri lífeyrissjóðsins vegna starfa lykilstarfsmanna.

1. gr. Skilgreining
Lykilstarfsmaður er einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu lífeyrissjóðsins.

Stjórn Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja metur hvaða starfsmenn lífeyrissjóðsins teljast vera lykilstarfsmenn.

Störf sem teljast til lykilstarfa:

 • Sérfræðingur

2. gr. Almenn hæfisskilyrði lykilstarfsmanna
Lykilstarfsmaður Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja þarf að uppfylla eftirfarandi hæfisskilyrði:

 1. vera lögráða,
 2. vera búsettur hér á landi,
 3. má ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaður gjaldþrota,
 4. vera fjárhagslega sjálfstæður,
 5. hafa óflekkað mannorð,
 6. má ekki á síðustu tíu árum í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl., eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
 7. búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt,
 8. starfsferill hans skal vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.
 9. má ekki taka þátt í atvinnurekstri, nema að fengnu leyfi stjórnar. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri, nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess. Slík þátttaka í atvinnurekstri má þó ekki vera til þess fallin að valda hagsmunaárekstrum eða skaða orðspor lífeyrissjóðsins.
 10. má ekki gegna öðrum launuðum störfum, nema að fengnu leyfi stjórnar. Slík störf mega þó ekki vera til þess fallin að valda hagsmunaárekstrum eða skaða orðspor lífeyrissjóðsins.

Lykilstarfsmaður má ekki taka þátt í meðferð máls, eða undirbúningi eða úrlausn þess, ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans eða félag í einkaeigu þar sem hann á hagsmuna að gæta.

Ef lykilstarfsmaður sinnir eignastýringu verðbréfasafna fyrir Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja skal hann vera hæfur til þess á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu og skal hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum.

3. gr. Gerð hæfismats
Framkvæmdastjóri metur hæfi þeirra einstaklinga sem teljast til lykilstarfsmanna. Stjórn Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja getur ákveðið að fela utanaðkomandi aðila að gera hæfismat.

Við hæfismat skal staðreyna hvort almennum hæfisskilyrðum, sbr. 2. gr., sé fullnægt. Jafnframt skal vinna þekkingarhluta hæfismats sem felur í sér eftirfarandi:

 • Meta þekkingu lykilstarfsmanns á þeim lögum, reglugerðum og reglum sem um starfsemi lífeyrissjóða gilda og þeim sérlögum sem gilda um starfssvið lykilstarfsmanns.
 • Lykilstarfsmaður skal kunna skil á þeim grundvallaratriðum í starfsemi lífeyrissjóðsins sem varða starfsskyldur hans.

Stjórn Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja skal staðfesta hvaða efnisatriði skuli leggja til grundvallar við þekkingarhluta matsins.

Við hæfismatið skal hafa hliðsjón af hugsanlegri rekstrar- og orðsporsáhættu lífeyrissjóðsins vegna starfa viðkomandi lykilstarfsmanns.

Mat á hæfi lykilstarfsmanns, sem er í starfi við gildistöku þessara verklagsreglna, skal fara fram innan fjögurra mánaða frá gildistöku þeirra. Verði lykilstarfsmaður fluttur til í starfi skal gera nýtt hæfismat innan þriggja mánaða teljist störfin ekki sambærileg og starfsmaður telst áfram vera í stöðu lykilstarfsmanns.

Meta skal hvort lykilstarfsmaður, sem ætlunin er að ráða til starfa eftir gildistöku þessara verklagsreglna, fullnægi almennum hæfisskilyrðum, sbr. 2. gr., áður en gengið er frá ráðningu hans. Þekkingarhluti matsins skal fara fram eigi síðar en þremur mánuðum eftir að hann tekur við starfi.

Lykilstarfsmanni sem stenst ekki þekkingarhluta hæfismatsins gefst kostur á að taka þann hluta upp aftur innan þriggja mánaða.

Uppfylli lykilstarfsmaður ekki hæfisskilyrðin, eða leiki af öðrum ástæðum vafi á að æskilegt sé að hann gegni lykilstarfi, skal stjórn lífeyrissjóðsins, að fengnu áliti framkvæmdastjóra, meta hvort viðkomandi lykilstarfsmaður eigi að gegna lykilstarfi í þágu lífeyrissjóðsins.

4. gr. Upplýsinga- og tilkynningarskylda lykilstarfsmanns
Lykilstarfsmanni ber að gefa réttar upplýsingar um þau atriði sem kanna þarf við hæfismat. Lykilstarfsmaður skal upplýsa framkvæmdastjóra tafarlaust um hverjar þær breytingar sem verða á högum hans, sem kynnu að leiða til endurskoðunar á hæfismati.

Lykilstarfsmanni er skylt að tilkynna framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins ef sú staða kemur upp að hann fái réttarstöðu grunaðs manns í sakamáli sem varðar atvinnurekstur eða starfsemi á fjármálamarkaði. Fái lykilstarfsmaður slíka stöðu skal stjórn lífeyrissjóðsins, að fengnu áliti framkvæmdastjóra, meta hvort viðkomandi lykilstarfsmaður eigi að víkja tímabundið úr stöðu sinni á meðan rannsókn stendur yfir.

Við mat á hæfi lykilstarfsmanns áskilur Lífeyrissjóður Vestmannaeyja sér rétt til að kalla eftir öllum þeim gögnum sem hann telur nauðsynlegt, þ.m.t. sakavottorði og veðbókarvottorði. Gæta skal öryggis og trúnaðar við varðveislu slíkra gagna.

5. gr. Upplýsingar um lykilstarfsmenn
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja heldur skrá yfir lykilstarfsmenn sína, þar sem fram kemur hverjir teljist til lykilstarfsmanna lífeyrissjóðsins, hvaða stöðu þeir gegna og hvers vegna þeir teljast til lykilstarfsmanna.

6. gr. Viðurlög
Gefi lykilstarfsmaður rangar eða villandi upplýsingar, í tengslum við hæfismat sem gert er á grundvelli þessara verklagsreglna, getur það varðað áminningu eða uppsögn.

7. gr. Birting
Verklagsreglur þessar skal birta á heimasíðu lífeyrissjóðsins.